Fréttir af Geirlandsá og Fossálum

Það er heldur betur að færast fjör í sjóbirtingsárnar okkar.
Við sögðum frá fyrstu göngum í Jónskvísl og Grenlæk sv 4 fyrir ca 5 vikum og nú berast fréttir af Geirlandsá og Fossálum.
Holl sem voru við veiðar í síðustu viku sögðu þannig frá því að það væri birtingur komin í Geirlandsá en veðuraðstæður hefðu ekki verið hagstæðar, vatnslítið, logn og bjart. Samt náðu menn að kroppa eitthvað upp úr Ármótunum.56

Við fengum svo fréttir af mönnum sem voru við veiðar um síðustu helgi. Þeir settu í þrjá fiska á fyrstu vakt svo um kvöldið þá opnuðust himnagáttirnar og rigndi sem enginn væri morgundagurinn. Áin hljóp í flóð og aur og gátu menn ekki stundað ána fyrr en á síðustu vakt er hún hreinsaði sig. Það var ekki að spyrja að því og niðurstaðan varð tólf birtingar í heildina.
Urðu þeir varir við fisk víða og misstu nokkra þó þeir kæmust ekkert um alla á vegna vatnavaxta.
Birtingarnir voru nýgengnir spikfeitir 4-6 punda.

Ég fékk svo stutt skilaboð  frá veiðimanni núna rétt í þessum skrifuðu orðum (28. ágúst kl 19:26) sem í stendur orðrétt
„Staðan núna er þannig að 15 sjóbirtingar og 1 lax eru komnir á land, er ekki í símasambandi við þá sem eru á efsta svæðinu J“  
Þetta holl hóf veiðar eftir hádegi í gær.
Greinilegt að birtingurinn er að hellast inn og eru aðstæður allar hinar bestu.

Við fengum einnig fréttir frá veiðimönnum sem hófu veiðar í gær í Fossálunum og voru þeir búnir að landa fimm birtingum og setja í enn fleiri á fyrstu vakt. Þá fékk hollið á undan þeim níu birtinga.
Það verður forvitnilegt að vita hvernig framhaldið verður en eins og flestir vita þá var metveiði bæði í Geirlandsá og Fossálum í fyrra. 
Við minnum á að það er enn eitt holl laust í Geirlandsá 2.-4. september sem er laugardagur til mánudags og það er rigning í kortunum.

Share