Ævintýraleg veiði í Geirlandsá

Enn berast okkur fréttir að austan og að þessu sinni af Geirlandsá. IMG 7562
Davíð Eyrbekk og félagar voru að ljúka ævintýralegu tveggja daga holli í dag.
Það var allt á kafi í vatni og nánast ekkert fært upp í gljúfur allan tímann en á móti kom að áin var aðeins muskuð en ekki kakóbrún og því vel hægt að veiða hana.
Til að gera langa sögu stutta þá náðu þeir félagar að landa 58 birtingum sem voru frá þremur og upp í níu pund.
         „Mest var fjörið í Ármótunum og niður á Görðum þar sem við settum í átta fiska í jafnmörgum köstum“ sagði Davíð og bætti við að þeir hefðu einnig sett í þó nokkuð af fiski í Tóftarhyl.
         „Nánast allur fiskur sem við fengum var nýgenginn, bjartur og silfraður og er þetta með því allra besta sem við höfum upplifað á svæðinu“  
Þá missti einn þeirra allsvakalegan fisk í Fernishyl sem var áætlaður nálægt tuttugu pundunum og hafði birtingurinn tæmt út af hjólinu marg ítrekað með bremsuna nánast komna í botn áður en honum leiddist þófið og sagði skilið við sársvekktan veiðimanninn sem, að sögn veiðifélaganna, stóð skjálftavaktina áfram langt fram á nótt og upplifði atganginn aftur og aftur...bara ef......  
Mikill fiskur hefur verið á svæðinu í allt haust og hafa haustlægðirnar og vatnsveðrið skapað aðstæður sem hafa oftast verið veiðimönnum í hag en að sama skapi hafa einhverja vaktir dottið út á móti þegar áin hefur verið ófrýnilegust.  

Share