Eftirminnileg vorferð í Geirlandsá

Vorveiðin fór vel af stað og fengum við sendar nokkrar línur úr veiðitúr sem farin var dagana 11.-13. apríl.
Sigurpáll náði að landa þeim stærsta sem við vitum um það sem af er vorveiðinni í Geirlandsá.
Við þökkum Sigurpáli fyrir og skorum á fleiri að senda okkur línu:

Stutt uppgjör frá fyrstu vorferð okkar veiðifélaganna í Geirlandsá.Diddi Eðvarðs með 94 cm ferlíkið

Þennan höfðingja fékk ég að kljást við í Geirlandinu núna í vor. Þegar leið á bardagann áttaði ég mig smátt og smátt á því að þetta væri vafalaust sá allra stærsti sem ég hef náð á stöngina í þau 25 ár sem ég hef stundað sportið. Eftir mikil læti og gauragang hafði ég betur. Við mældum hann við stöngina, þar sem við vorum skussar og gleymdum málbandinu.
Þegar ég kom heim og mældi þangað sem hann náði á einhendunni góðu komst ég að því að hann var 94 cm.

Ég átti svo við annan sem ég held að hafi jafnvel verið enn stærri, en sá hafði betur (þeir eru alltaf stærri sem sleppa). Ég landaði svo enn einum sem var ekkert mikið minni. Á næstseinustu vakt hafði ég landað 11 birtingum og enginn þeirra var undir 5 pundum, þessi ferð var ótrúleg hreint út sagt og ég held að ég hafi aldrei lent í öðru eins ævintýri.

Við félagarnir enduðum í 40 birtingum og enginn fór heim með öngulinn í rassinum, að sjálfsögðu var góður matur í boði hjá BÓ (Bjarna Óla) og þar á meðal rammíslensk kjötsúpa, sem á að vera það eina sem stenst lög í veiðiferðum.

Ég vil þakka vinum mínum fyrir frábæra ferð, þessi hópur er alltaf ávísun á frábæra skemmtun og það held ég að klikki barasta aldrei, alveg sama hvort fiskast eður ei.

Ég át hinsvegar nokkur pör af daunillum sokkum þegar ég kom heim, en almennt er heldur enginn skortur á þeim eftir veiðiferðir. Ég hef nefnilega alla tíð talað á móti vorveiði, fundist hún óspennandi þar sem menn draga á land úrvinda, hálfdauð og grindhoruð kvikindi sem rétt álpuðust til þess að komast lífs af undan vetri. En þvert á móti fer þessi ferð beint á verðlaunahilluna sem ein af topp fimm skemmtilegustu ferðum sem hef ég farið í veiði, þessi á geymir fiskinn vel yfir vetur og er þar að auki smekkfull af vænum geldfiski. Við erum allir þrælspenntir fyrir að fara aftur næsta vor. Það var einmitt það sem gamli maðurinn, Óli Baldur Bjarnason Geirlandsársérfræðingur hafði sagt okkur, "þið eigið eftir að fara þangað aftur og aftur" og hvað lærir maður? Maður á alltaf að hlusta á gamla menn.....já eða oftast.

Geirlandsáin er hrikalega spennandi og sérstaklega þar sem allt efrasvæðið er enn ókannað af okkur.

Ég sleppti að sjálfsögðu þessum stórhöfðingja og ætla mér reyna mitt allra besta til að hitta hann aftur í haust. En ef ekki þá er í það minnsta alveg nóg fyrir mig að vita af honum þarna í ánni, sílspikuðum og myndarlegri en nokkurntíma fyrr.

Veiðikveðja, Sigurpáll Davíð Eðvarðsson

Share