Afmælis og villibráðarhátíð 2018

Það var mikið um dýrðir þegar Stangveiðifélag Keflavíkur hélt upp á 60 ára afmælið með pompi og prakt fyrir fullu Oddfellow húsi um helgina.

Matreiðslumeistarinn Úlfar Finnbjörnsson var að sjálfsögðu í aðalhlutverki með villibráðarhlaðborð sem á sér enga hliðstæðu. Það eru löngu hætt að vera til nógu sterk lýsingarorð yfir matseld og framreiðslu þessa mikla meistara en þetta er 10. árið í röð sem hann er með villibráð hjá félaginu.

Tekið var á móti veislugestum með fordrykk og bauð Gunnar Óskarsson, formaður félagsins, gesti velkomna og setti hátíðina.

Veislustjóri kvöldsins Gísli Einarsson mætti uppáklæddur í hárauðum jakkafötum með gullbindi sem vakti mikla kátínu og fór hann hamförum í uppistandinu. Máttu gestir hafa sig alla við að ná andanum á milli hláturskasta.

Jóhanna Guðrún tróð upp ásamt Davíð Sigurgeirssyni undirleikara og fóru þau hjú á kostum í frábærum flutningi sínum.

Verðlaunafhending og happdrætti var á sínum stað með glæsilega vinninga og að lokum steig hljómsveitin Sue á stokk og hélt veislugestum í dúndurstuði á dansgólfinu fram eftir nóttu.

Hinn velheppnaða ljósmyndabakgrunn í forstofu hússins hannaði Benedikta Benediktsdóttir og kunnum við henni bestu þakkir fyrir.

Ljósmyndun var svo í öruggum höndum Garðars Ólafssonar og óhætt að segja að myndirnar segi meira en mörg orð um stemninguna.

Stjórn SVFK vill koma á framfæri þakklæti til allra þeirra sem lögðu hönd á plóg til að gera þessa hátíð sem glæsilegasta.
Einnig viljum við þakka styrktaraðilum og þá sérstaklega veislugestum fyrir frábært kvöld.
Án ykkar væri þetta ekki hægt.

 

Fleiri myndir hérna.

 

   DSC00979
DSC01064  DSC01151

 

Share