Glimrandi Árshátíð

Árshátíð Stangveiðifélags Keflavíkur fór fram laugardaginn 21. nóvember í KK-salnum og tókst vel í alla staði. Það voru um hundrað árshátíðargestir sem mættu og skemmtu sér konunglega.

Formaður SVFK Gunnar Jakop Óskarsson setti hátíðina og var veislustjórn í öruggum höndum Gylfa Jóns Gylfasonar sem fór á kostum. Góður rómur var gerður af veislumat kvöldsins þar sem um hreint og beint bragðlaukarallý var að ræða en það var Villibráðarhlaðborð að hætti Úlfars Finnbjörnssonar matreiðslumeistara. Ræðumaður kvöldsins var svo þingmaðurinn Oddný Guðbjörg Harðardóttir sem sagði m.a. mjög skemmtilega frá hennar fyrsta veiðitúr og hvernig það er að eiga maka sem er veiðimaður. Meðal skemmtiatriða var flott dansatriði frá Fimleikafélagi Keflavíkur. Verðlaunaafhending fór fram þar sem veitt voru verðlaun fyrir afrakstur sumarsins þ.e. þeir sem veiddu stórt og vel og svo Happdrættið að sjálfsögðu á sínum stað. Dansað var fram eftir og var það hljómsveitin Bara Tveir sem hélt gestum við efnið. Meðfylgjandi mynd er af verðlaunahöfum. Frá vinstri: Kári Bjarnason, Óskar Færseth, Ásdís Guðbrandsdóttir, Óskar Færseth yngri, Hjörtur Hannesson, Stefanía Helga Björnsdóttir fyrir hönd Guðrúnar Guðmundsdóttur og Jón Gunnarsson.

Share