Lög félagsins

1. gr. – Nafn og heimili

Nafn félagsins er Stangveiðifélag Keflavíkur og er heimilisfang þess og varnarþing í Keflavík.

 

2. gr. – Tilgangur félagsins

I. Að gæta hagsmuna félagsmanna og bæta aðstöðu þeirra til stangaveiði, fyrst og fremst með því að taka á leigu veiðivötn til afnota fyrir félagsmenn eða taka að sér útleigu á veiði í umboði veiðieigenda.

II. Að vinna á móti því að notaðar séu veiðiaðferðir sem eru ólöglegar eða líklegar til að spilla veiði.

III. Að veita félagsmönnum fræðslu um lax og silungsveiðar eftir því sem tök eru á og stuðla að aukinni leikni í íþróttinni m.a. með því að gangast fyrir kennslu í köstum.

IV. Að stuðla að ræktun fiskistofna á veiðisvæðum þeim er félagið fær til umráða, þar sem við á.

 

3. gr. – Félagsaðild

Félagar geta þeir einir orðið sem eru íslenskir ríkisborgarar.

 

4. gr. – Gjöld

Árgjald félagsmanna og inntökugjald skal ákveðið á aðalfundi ár hvert. Árgjöld skulu greidd fyrir 15. júní.

 

5. gr. – Eignir og ábyrgð

Sjóður félagsins heitir félagasjóður og skal hann ávaxtaður í banka eða sparisjóði. Í félagssjóð renna öll árgjöld og inntökugjöld félagsmanna ásam öðrum þeim tekjum sem félagið kann að hafa. Sjóðurinn notast sem veltufé félagsins eftir því sem með þarf.
Enginn félagsmanna á tilkall til hluta af sjóðum félagsins eða annara eigna þess þó hann hverfi úr félaginu eða félaginu verði slitið.
Enginn félagsmaður ber ábyrgð á skuldbindingum félagsins með öðu en gjöldum sínum til þess.
Skuldi félagsmaður árgjöld fyrir tvö ár skal hann felldur út af félagaskrá.

 

6. gr. Stjórn og stjórnarkostning

Stjórn félagsins skipa fimm menn: Formaður, varaformaður, ritari, gjaldkeri og meðstjórnandi.
Formaður skal kosinn til eins árs en aðrir stjórnarmenn til tveggja ára, þó þannig að í fyrsta skipti skulu tveir þeirra ganga úr stjórninni eftir hlutkesti. Í varastjórn skulu kosnir 3 menn til eins árs í senn. Stjórnarkosning fer fram á aðalfundi og skal kosið skriflega, bundinni kosningu milli þeirra sem stungið er upp á til hvers starfs.
Á aðalfundi skal ennfremur kjósa skoðunarmenn reikninga félagsins.
Skuldlausir félagsmenn eru kjörgengir.
Formaður kveður varamenn á stjórnarfundi eftir því sem þörf krefur.

 

7. gr. – Aðalfundur

Lögmætir aðalfundir hafa æðsta úrskurðarvald í öllum félagsmálum, með þeim takmörkum, sem settar eru í samþykktum þessum.
Til félagsfunda skal boða með tveggja daga fyrirvara minnst.
Fundir skulu haldnir þegar þörf þykir að dómi félagsstjórnar eða þegar minnst 10% félagsmanna óskar þess, enda geri þeir grein fyrir fundarefni.
Aðalfundur skal haldinn fyrir mars lok ár hvert. Stjórn félagsins boðar til fundarins með minnst þriggja daga fyrirvara bréflega eða auglýsingu í tveim dagblöðum. Aðalfundur er lögmætur, ef hann er löglega boðaður. Á aðalfundi gefur stjórn félagsins skýrslu um starfsemi félagsins á liðnu ári, leggur fram endurskoðaða reikninga fyrir undanfarandi ár. Ársreikningar félagsins, endurskoðaðir, skulu liggja frammi til athugunar fyrir félagsmenn á þeim stað, sem félagsstjórnin ákveður í eina viku fyrir aðalfund.

 

8. gr. – Verkefni stjórnar

Stjórnin hefur á hendi allar framkvæmdir félagsins á milli funda. Hún sér um útvegun veiðiréttinda sbr. 2.gr 1.tl. og gerir samninga um þau í umboði félagsins. Stjórnin ber þó öll meiriháttar fjárhagsmál undir félagsfund, svo að miklu leyti sem við verður komið, einkum ef um samninga til langs tíma er að ræða.
Stjórnin annast undirbúning og úthlutun veiðileyfia, ákveður verð á þeim og setur reglur um veiði í einstökum vötnum. Skulu skuldlausir félagar sitja fyrir um veiðileyfi, en heimilt er að leigja öðrum veiði, sem skuldlausir félagsmenn hafa ekki sótt um eða innleyst á tilsettum tíma. Stjórnin getur ráðið framkvæmdastjóra til þess að annast daglegar framkvæmdir undir umsjá stjórnarinnar.
Allur kostnaður við ráðstafanir og framkvæmdir samkvæmt þessari grein greiðast úr félagasjóði.

 

9. gr. – Boð í veiðivatn

Óheimilt er félagsmanni að bjóða í veiðisvæði eða taka að sér að leigja út vatn til veiða, nema hafa áður fengið til þess samþykki félagsstjórnar. Þetta ákvæði nær þó ekki til endurnýjunar leigusamnings sem félagsmaður var aðili að áður.

 

10. gr. – Félagsmenn

Félagsmönnum er skylt að virða venjulegar og viðurkenndar veiðireglur. Að koma drengilega og vinsamlega fram við félagsmenn og viðskiptamenn félagsins og að hlýta lögum og reglum félagsins að öðru leyti í einu og öllu.
Nú er fálgsmaður staðinn að veiði í óleyfi eða gerir sig sekan um að beita veiðiaðferðum sem eru ólöglegar samkvæmt landslögum, eða óleyfilegar samkvæmt þessum lögum eða reglum, sem settar kunna að vera um veiði í tilteknu vatni. Skal hann þá, ef brotið er framið vísvitandi, sviptur veiðirétti á tilteknu veiðisvæði eða öllum veiðisvæðum sem félagið ræður yfir á því veiðitímabili eða hinu næsta á eftir. Sé brotið ítrekað má víkja honum úr félaginu.
Brot gegn 9.grein varðar brottvikningu úr félaginu, nema sérstakar málsbætur séu fyrir hendi.
Stjórnin úrskurðar víti samkvæmt þessari grein, en félagsmaður, sem víti eru gerð, getur skotið málinu til félagsfunda. Málskot frestar ekki framkvæmdum úrskurðar.

 

11. gr. – Slit félagsins

Félaginu verður ekki slitið nema á aðalfundi og með samþykki meirihluta allra félagsmanna. Sé félaginu slitið skal, sjóðum þess varið til eflingar fiskiræktar á Suð-Vesturlandi að tillögum veiðimálastjóra.

 

12. gr. – Lagabreytingar

Lögum þess verður aðeins breytt á aðalfundi með 2/3 hluta atkvæða hið minnsta. Til að breyta 4. málsgrein 5.greinar, þarf þó 2/3 hluta allra félagsmanna. Tillögur til lagabreytinga skulu afhentar stjórn fyrir 1. nóvember og sendir stjórnin félagsmönnum þær með fundarboði. Ekki verða greidd atkvæði um aðrar tillögur til lagabreytinga en þær sem sendar eru með fundarboði og breytingartillögur við þær.

 

Þannig samþykkt á aðalfundi 1978, með breytingu 9.gr á aðalfundi 1979, 3. gr. á aðalfundi 1987, 1. og 3 gr. 1995 og 5.gr. á aðalfundi 2000.

Keflavík 16. mars 2001.

Heimilisfang

Hafnargötu 15 eh
230 Keflavík

Símanúmer

421-2888

Tölvupóstur

svfk@svfk.is