Úthlutunarreglur

1. Allir þeir sem eru félagsmenn S.V.F.K. hafa rétt til að sækja um veiðidaga í forúthlutun.

2. Aðeins skuldlausir félagar koma til greina við úthlutun veiðidaga. 

3. Umsókn þar sem sótt er um allar stangir af félagsmönnum hefur forgang, t.d. sé sótt um tvær stangir þá þarf tvo félagsmenn og þrjár stangir þurfa þrjá osfrv.

4. Á hverri umsókn er gefinn kostur á að sækja um aðaldaga og einnig varadaga. 

Eru varadagar hugsaðir sem möguleiki fyrir þá, sem ekki eru bundnir eingöngu af þeirri dagsetningu sem þeir sækja um sem aðaldaga. 

Þeir sem setja varadaga á sína umsókn gefa þá þann möguleika að þeir séu færðir á þá, en það er eingöngu gert ef fleiri umsóknir eru á aðaldögum viðkomandi umsóknar. 

Færsla á varadaga kemur þó aldrei til greina sé sótt um þá (varadagana) sem aðaldaga á umsóknum annarra aðila. 

Sé umsókn færð á varadaga fellur út sá réttur að fá að varpa hlutkesti um aðaldaga umsóknarinnar, þar sem viðkomandi aðili hefur þá þegar verið færður á varadagana og fær því þeim dögum úthlutað.  

5. Séu umsóknir um aðaldaga jafnsterkar og varadagar ekki teknir fram, skal reynt að hafa samband við alla, þeim gerð grein fyrir stöðunni og athugað hvort einhverjir geti fært sig sé sá kostur er fyrir hendi. Geti viðkomandi ekki fært sig skal varpa hlutkesti um hver umsóknanna hljóti úthlutun. Þeir sem tapa hlutkestinu eiga þá aðeins möguleika á því að velja úr þeim leyfum sem eftir eru, eftir að úthlutun lýkur.

6. Sé umsóknin ekki fullgild eða vægi hennar ekki nógu sterkt er hún sett til hliðar og unnið úr henni eftir að úthlutun lýkur á viðkomandi veiðisvæði. Hinsvegar getur viðkomandi umsókn fengið úthlutað veiðileyfi svo lengi sem aðrar sterkari umsóknir séu ekki á viðkomandi dögum. 

7. Vægi umsókna á aðaldaga margfaldast ekki þó umsóknir séu fleiri en ein á sömu aðaldaga af viðkomandi hóp félagsmanna. 

Þá geta félagsmenn ekki sótt um marga samliggjandi veiðidaga sem aðaldaga á sama veiðisvæði. Sé það gert þá mun einungis umsóknin með fyrstu dagsetningunni vera tekin til greina og hinar umsóknirnar vera ógildar. Sama á við um ár eins og t.d. Jónskvísl og Grenlæk sv4 þar sem veiðidagar eru ekki endilega samliggjandi og hollin því ekki mörg.Sama á við á þeim svæðum, einungis umsóknin með fyrstu dagsetningunni mun vera tekin til greina og hinar umsóknirnar vera ógildar.  

Þetta á eingöngu við sé um mikla ásókn að ræða á viðkomandi veiðisvæði og réttur til þess að draga spil um viðkomandi daga getur þá dottið sjálfkrafa út. 

8. Þeir sem sækja um leyfi í forúthlutun á vefnum eiga að berast staðfestingar  í tölvupósti frá skrifstofu innan tveggja sólarhringa, fyrr er umsóknin ekki gild.

9. Sé félagsmaður óánægður með úthlutun sína getur hann undir umsjón forsvarsmanns úthlutunar á viðkomandi ár svæði, fengið að skoða hvernig var farið  með umsókn hans.

Stjórn S.V.F.K. ber ábyrgð á úthlutun veiðileyfa og úrskurðar um vafaatriði

Heimilisfang

Hafnargötu 15 eh
230 Keflavík

Símanúmer

421-2888

Tölvupóstur

svfk@svfk.is