Grenlækur sv 4

Staðsetning

Grenlækur er staðsettur í Landbroti rétt vestan Kirkjubæjarklausturs. Það þarf ekki að fara mörgum orðum um Grenlækjarsvæðið sem er eitt það fengsælasta á landinu. Þetta svæði lengir sjóbirtingstímabilið þar sem hann veiðist mun fyrr hér en á þeim svæðum sem við eigum að venjast. Sjóbirtingsveiðin hefst í maí og er fram í júní. Þá tekur við veiði á staðbundum urriða og vænni bleikju. Um miðjan júlí eru svo mættar fyrstu alvöru sjóbirtingsgöngurnar og er fiskur að ganga út októbermánuð.

Leiðarlýsing að húsi

Á austurleið er beygt til hægri af þjóðvegi 1 rétt áður en farið er yfir Skaftárbrúna. Ekið er í um 10 mínútur þar sem keyrt er yfir árnar Grenlæk, Sýrlæk og Jónskvísl. Beygt er til vinstri inn að bæjunum Fossum og Arnardrangi. Bærinn Arnardrangur er staðsettur við enda vegarins. Þar er ekið í gegnum hlað Arnardrangs sem leið liggur að veiðihúsinu. Ath að þessi leið er eingöngu fyrir veiðimenn SVFK sem gista í húsinu.

Fólksbílafært er að veiðihúsinu en 4×4 jeppar eru nauðsyn á veiðisvæðinu sjálfu.
Vinsamlegast lokið hliðinu á eftir ykkur.

Veiðihús

Gott veiðihús er á besta stað í hraunjaðrinum rétt áður en komið er í Flóðið. Húsið er rafvætt og skiptist þannig að það er eldhús, setustofa, snyrting og sturta í annarri álmunni og fjögur tveggja manna (kojur)svefnherbergi í hinni. Gasgrill er á staðnum. 

Veiðimenn mega koma í veiðihúsið einni klukkustund áður en veiði hefst og skulu rýma húsið klukkan 14 brottfarardag. Eftir 14. ágúst skal rýma húsið kl 13.

Húsgjald og þrif

Sérstakt húsgjald er kr 20.000 fyrir hollið og er ekki inniflalið í stangarverðinu. Innifalið í húsgjaldi eru uppábúin rúm og almenn þrif á húsi. Ætlast er til þess að veiðimenn sjái um þrif á grilli, klára allt uppvask, ganga frá öllu á sinn stað og almennum frágangi. Einnig skulu veiðimenn ganga fá öllu rusli og taka með sér við brottför. Umsjón og þrif: Björn Hafsteinsson s 848 2157.

Veiðitilhögun

Vorveiði:
Fjöldi stanga:
4
Skipting daga: Tveggja daga holl (hálfur, heill og hálfur dagur)
Veiðitími: 7. maí – 20. júní
Agn: Eingöngu fluga og öllum fiski skal sleppt

Sumar og haustveiði:
Fjöldi stanga: 4
Skipting daga: Tveggja daga holl (hálfur, heill og hálfur dagur)
Veiðitími: 20. júní – 20. okt
Agn: Eingöngu fluga og öllum fiski skal sleppt

Daglegur veiðitími

7. maí til 14. ágúst frá kl 7-13 og 16-22
14. ágúst til 18. okt frá kl 7-13 og 15-21
Ath að eftir 14. ágúst skal hætta veiðum kl 12 á skiptidögum og rýma húsið kl 13.

Veiðibók

Veiðibók fyrir veiðimenn SVFK er staðsett í veiðihúsinu.
Skrá skal allan afla vel og skilmerkilega í veiðibók einnig þeim fiski sem er sleppt.
Það er mikilvægt að einstaklingsskrá hvern fisk.

Leiðarlýsing að veiðisvæði

Frá húsinu er ekin leið sem liggur til baka á söndunum meðfram hraunlendinu og beygt til vinstri sem leið liggur yfir lækjarsprænu og sveigir slóðin niður á sandinn. Slóðanum er fylgt niður að brú yfir Grenlæk. Allra stærstu bílar komast ekki yfir brúna. Vinsamlegast lokið öllum hliðum á eftir ykkur.

Veiðistaðalýsing

Svæðið afmarkast af skiltum við veiðisvæðaskil. Að ofan eru veiðiskilin við skilti ofan við Efri-Skurð, en að neðan við skilti sem er staðsett við Neðri-Skurð, neðan við brúna. Ferðast er um austurbakka veiðisvæðisins því vesturbakkinn er tæplega fær öðrum en fuglinum fljúgandi. Einnig má fara um nánast allt Flóðið á vöðlum, en þó þarf að gæta fóta sinna því á stöku stað er botninn laus í sér. Eins getur gróður flækst fyrir fótum veiðimanna, einkum síðsumars. Bátur er til ráðstöfunar fyrir veiðimenn SVFK og er hann læstur.
Veiðisvæðið byrjar við tangann rétt ofan við Efri-Skurð en niður af honum breiðir lækurinn úr sér og nefnist þar Fitjaflóð eða Flóðið. Í Flóðinu má á sumrin finna ála með áberandi straumi en annars er vatnið þar kyrrt sem stöðuvatn. Margir telja veiðivon meiri í álunum en aðrir segja að best sé að kasta fyrir fisk við brúnirnar á sefbreiðunum. Enn aðrir segja að vesturbakkinn, þar sem drullupyttirnir eru, sé bestur. Neðri endi Flóðsins endar á svonefndri Trekt. Kvíslast áin þar eftir á milli hólma og síðan sameinast árvatnið aftur í svokölluðum
Neðri-Skurði allt til neðri veiðimarka sem eru við girðingu, spölkorn neðan við brúna. Ekki er síður von á sjóbirtingi í Trektinni og Neðri- Skurði en í Flóðinu og Efri-Skurði.

Panta veiðileyfi