Líf og fjör í Geirlandsá

Eftir stórrigningar síðustu daga þá hefur færst aukið líf í Geirlandsá.
Sennilega hefur litla Skaftárhlaupið ekki skemmt fyrir heldur.
Fiskurinn virðist hafa sprautast upp í ána við þessar aðstæður.
Eins og hann hafi þurft smá hvatningu til að láta vaða yfir sandana neðar í vatnakerfinu.
Við fengum fréttir af tveimur hollum dagana 18.-20. og 20.-22. sept.

Jón Þröstur Jóhannesson var einn þeirra sem var í fyrri hópnum og gefum við honum orðið;
„Vorum að koma félagarnir úr Geirlandinu, veiðin var nokkuð góð og fiskur í öllum veiðistöðum frá Görðum upp að fossi, bæði nýrunninn og leginn í bland. Við fengum 20 fiska og þar af var einn lúsugur lax veiddur síðasta morguninn í Ármótunum ásamt nýgengum birtingum.
Stærstu birtingarnir voru tæp 7 kg og rúm 8 kg. Gott vatn var á svæðinu og var fært upp í gljúfur á þremur vöktum.“
Þá misstu þeir félagar rosalegan fisk í Höfðabólshyl en sá rauk um allan hyl og sleit sambandi sínu við veiðimanninn er hann renndi sér niður í rennuna neðan við veiðistaðinn Lundasteina, gerðist þetta í kafavatni eins og áður hefur komið fram og veiðimaðurinn réði aldrei ferðinni.

Við tókum púlsinn á Sigurgeiri Jóhannessyni sem var í seinni hópnum;
„Það var mikið líf og fiskur um alla á og flottar aðstæður. Við fengum 22 fiska í heildina og voru 19 þeirra birtingar. Stærstur var 76 cm birtingur sem ég landaði og sleppti aftur í Tóftarhyl, eins fengum við einn ansi sveran upp í Hagafossi. Að auki missti ég boltafisk í Tóftarhyl sem ég reyndar náði að sjá áður en hann fór af. Töluvert var af nýgengnum 3-5 punda geldfiski á svæðinu og útlitið gott fyrir næstu daga.“

Þökkum þeim félögum fyrir fréttirnar og hvetjum aðra til að senda okkur línur.

Meðfylgjandi mynd er af Sigurgeiri með 76 cm birtinginn.