Sjóbirtingur virðist vera mættur á flest svæði SVFK fyrir austan. 

Við sögðum frá því í júlí að birtingurinn væri mættur í Jónskvísl. Heyrðum við í Grétari Sigurbjörnssyni og Benedikt Bjarna Albertssyni sem, ásamt konum sínum, áttu góðar stundir á bökkum Jónskvíslar og Sýrlæks dagana 3.-5. ágúst. Sögðu þeir mikið af fiski vera gengið í ána en of gott veður hefði komið í veg fyrir frekari veiði.
Þau náðu samt tveimur fallegum birtingum og voru mjög sátt með túrinn.

Einhver laxveiði ásamt bleikju í bland hefur verið í sumar í Geirlandsá. Frekar lítið vatn hefur verið fyrir austan en það kom allhressilegt rigningarkast í hana um helgina og sýndi mælirinn við Flatarhyl að rennslið hefði þotið úr 13 m3/s í yfir 100 m3/s á 16 tímum og því einungis tímaspursmál hvenær birtingurinn myndi riðjast upp sandana.
Heyrðum við svo af því í kvöld (12. ágúst) að hann væri mættur, það hefðu fengist þrír fallegir nýgengnir birtingar á kvöldvaktinni í dag.
Veiddust þeir allir í Ármótunum í flugvatni (minnkandi samt) og bongoblíðu (18 stiga hita og sól), tveir þeirra reyndust 61 cm hængar og ein spikfeit 67 cm hrygna með halalús sem var sleppt aftur.
Var stökkvandi birtingur á svæðinu og spennandi tímar framundan.


Spjall á fésbókarsíðu SVFK sagði svo frá því um daginn  að sjóbirtingur sé einnig farinn að veiðast í Fossálunum.  
Fengum við sendar nokkrar línur frá veiðimanni sem var við veiðar dagana 30/7-3/8 og varð honum svo að orði:
„Þarna geysaði löðrandi slagveður mest allan tíman og áin var illúðleg þangað til í blálokin. Varð samt ekkert var við birting en landaði einni fínni bleikju og missti aðra í 17. Sú sem slapp var tröll (að sjálfsögðu) Gleymdi samt að bóka, zorrí. Sú sem slapp hefði mögulega verið mín stærsta bleikja og hef ég þó fengið þær upp í 7 pund. Ég var með hana á í ca 5 mínútur og hún var farin að þreytast eftir mikil læti. Var tvisvar með hana mjög nálægt mér, 8-10 pund og mjög svört og rauð…sú sem ég landaði var ca 1,5 pund“

Viljum við endilega hvetja menn til að senda okkur myndir og/eða línur, margir eru orðnir ansi spenntir fyrir haustinu á sjóbirtingsslóðum.