Umgengni og veiðireglur

Almennar umgengni og veiðireglur S.V.F.K.

Brot á reglum varðar refsingu skv. lögum S.V.F.K. og skv. landslögum þar sem við á.

I.

Veiðimenn skulu bera á sér veiðileyfi sitt og sýna það veiðiverði ef óskað er. Veiðileyfin eru gefin út á nafn og er framsal óheimilt nema með samþykki félagsins. Veiðiverðir hafa heimild til að skoða veiðitæki og feng. Skráið vel og skilmerkilega í veiðibækurnar. Leyfið töku hreistursýna ef óskað er.

II.

Þar sem heimilað er að tveir veiðimenn séu saman um stöng, skulu þeir fylgjast að við veiðarnar. Það er mjög alvarlegt brot ef veiðimenn, sem eru saman um stöng veiða samtímis. Varðar það brottrekstur beggja úr ánni þegar í stað, upptöku afla og frekari refsingu eftir því sem við á. Skipting á tíma á sitt hvorum stað við ána er óheimil.

III.

Kappkostið að ganga vel um veiðisvæðið. Fleygið ekki rusli í árnar, á árbakkana eða á víðavangi. Hlífið gróðri og valdið ekki jarðraski. Forðist akstur utan venjulegra ökuslóða. Lokið girðingahliðum.

IV.

Í öllum veiðihúsum S.V.F.K. eru rúmstæði með dýnum, eldunaraðstaða, áhöld til matreiðslu og borðbúnaður. Veiðimenn þurfa að hafa sængur ásamt sængurfötum meðferðis. Veiðimönnum ber að ganga vel um veiðihúsin og umhverfi þeirra og skila þeim ásamt öllum búnaði hreinum og vel frá gengnum í hendur þeirra sem næstir koma. Veiðimenn eiga rétt á að koma í veiðihúsin einni klukkustund áður en veiðitími þeirra hefst. Vinsamlegast komið ekki að veiðihúsunum fyrir tilsettan tíma. Það truflar þá sem þar starfa að frágangi. Veiðimenn skulu rýma húsin klukkan 14 á brottfarardag. Sé einhverju ábótavant í húsunum er þess vænst af félagsmönnum S.V.F.K. að þeir bæti þar um, eftir því sem við verður komið. Sé frekari úrbóta þörf skal formanni árnefndar gert viðvart. Í veiðihúsunum eru upplýsingar um árnefndarformenn á hverjum stað.

V.

Á flestum veiðisvæðum gilda einhverjar sérreglur og er þær að finna í viðkomandi veiðihúsum. Veiðimönnum ber að kynna sér þessar reglur áður en þeir hefja veiði.

Vanræksla þar um veitir enga afsökun.