Veiðisvæði

Grenlækur svæði 4

Grenlækjarsvæðið er eitt það fengsælasta á landinu.

Þetta svæði lengir sjóbirtingstímabilið þar sem hann veiðist mun fyrr hér en á þeim svæðum sem við eigum að venjast. Sjóbirtingsveiðin hefst í maí og er fram í júní. Þá tekur við veiði á staðbundum urriða og vænni bleikju. Um miðjan júlí eru svo mættar fyrstu alvöru sjóbirtingsgöngurnar og er fiskur að ganga út október.

Félagið á stórt og gott veiðihús sem er á besta stað í hraunjaðrinum rétt áður en komið er í Flóðið. Bátur er á svæðinu til ráðstöfunar fyrir veiðimenn. Veiðisvæðið krefst 4×4 farartækis. 

Hrolleifsdalsá

Áin fellur í austanverðan Skagafjörð um 18 km norðan Hofsóss rétt sunnan við kirkjustaðinn Fell í Sléttuhlíð. Þetta skemmtilega veiðisvæði býður upp á mjög fallega sjóbleikju, urriða og laxavon. Áin þykir einkar skemmtileg fluguveiðiá, með fjölmörgum skemmtilegum veiðistöðum. Hægt er að aka um neðri veiðistaði árinnar á jeppling en til að komast fram á dal þarf að nota tvo jafnfljóta.

Lítið veiðihús með góðri aðstöðu er við ána. Framan við veiðihúsið er góð flöt þar sem hægt er að koma fyrir fellihýsi og tjöldum.

Jónskvísl og Sýrlækur

Jónskvísl og Sýrlækur í Landbroti eru mjög fallegar og skemmtilegar veiðiár. Veiðin er fyrst og fremst sjóbirtingur sem fer að veiðast upp úr miðjum júlí. Einnig er góð bleikju og urriðavon. Jónskvísl er nánast einn samfelldur veiðistaður með nokkrum sérlega góðum veiðistöðum. Þar ber helst að nefna Eyvindarhyl sem getur geymt mikið af fiski. Mjög gott aðgengi er að ánni en vegur að veiðihúsi krefst jepplings eða öflugri fararskjóta.

Félagið á stórt og gott veiðihús sem er á besta stað í hraunjaðrinum rétt áður en komið er í Flóðið

Vesturhópsvatn

Vesturhópsvatn er staðsett í V-Húnaþingi og er veiði- svæðið helsta fjölskyldusvæði félagsins. Vatnið er þekkt fyrir afbragðsveiði og fjölskrúðugt fuglalíf. Allgóður fiskur er í vatninu og er megin uppistaðan urriði  og bleikja. Algengt er að fiskurinn sé 1-4 pund en dæmi eru um mun stærri fiska. Seinnihluta sumars gengur sjóbirtingur og lax í vatnið en samgangur er við sjó um Faxalæk og Víðidalsá.

Umhverfið er fjölbreytt, vel gróið og fagurt. Í nágrenni vatnsins er margt að skoða og ber þar helst að nefna Borgarvirki, Hvítserk, Kolugljúfur og Bakkarbrúnir í Víðidal. Mjög gott nýtt hús er við vatnið með tveimur aðskildum íbúðum undir sama þaki. Fyrir stærri hópa er upplagt að leigja báðar íbúðirnar og ætti þá að vera nægt rými fyrir 16-20 manns. Flöt er við húsið og auðvelt er að komast í rafmagn, þar sem útitenglar eru staðsettir á bak við húsið. Bátur er til afnota fyrir veiðimenn ásamt árum og björgunarvestum. Húsið er leigt út allt árið um kring og er hægt að veiða í vatninu um ís þegar frysta tekur.