Geirlandsá sein til en fer vel af stað

Árnefnd Geirlandsár opnaði ána dagana 9.-11. apríl en vetrarhörkur á svæðinu gerðu það að verkum að ekki var hægt að opna ána eins og venja er dagana 1.-3. apríl.

Mikil rigning sem var á svæðinu í byrjun vikunnar hjálpaði allhressilega til og juku væntingar. Þessi mikla rigning gerði það að verkum að efri hluti árinnar sprengdi sig úr klakaböndum og ruddi sig með látum og þeytti öllu fram úr gljúfrunum. Safnaðist mest allt saman fyrir á lygnasta kafla árinnar sem eru Ármótin, sá mikli veiðistaður, þar sem 90 prósent allrar veiði fæst á vorin.
Þegar vatn fór að sjatna aftur þá sátu heilu klakaborgirnar eftir þannig að svæðið var eins og skriðjökull yfir að líta eftir ósköpin og alls ekki árennilegt. Snjóaði svo í ofanálag en tveggja daga sólbráð gerði gæfumuninn og hægt var að opna ána seinnipart 9. apríl.
Var ekki hægt að komast í neðri hluta Ármóta fyrst til að byrja með en sól og rigning seinni hluta tímans lagaði ástandið þar til muna.

Mikið var af fiski á svæðinu eins og við var að búast. Sett var í marga stóra fiska og var þar stærstur 97 cm hængur og annar litlu minni eða 96 cm. Svakalega lífsreyndir aldamótadrekar og hrein forréttindi að fá að sjá svona stórar skepnur. Báða fiskana setti Gunnar Óskarsson í.
Tók sá stærri Snældu og sá „minni“ Black Ghost. Mest var um stóran hrygningarfisk að ræða en einnig var eitthvað af geldfiski á svæðinu.
Áður en yfir lauk þá var sett í 93 fiska og voru það flugurnar Black Ghost, Snælda og Dýrbítur sem virkuðu langbest.

Þeir sem tóku svo við af opnuninni voru búnir að setja í 70-80 fiska þegar við tókum púls á þeim undir kvöld 12. apríl.
Hjörleifur Stefánsson fer fyrir hópnum „Við erum búnir að vera hér í geðveikt góðu veðri allan tímann og mikill fiskur á svæðinu, ég setti í einhverja 15-17 fiska nú á seinni vaktinni og missti örugglega 20 plús, alveg ævintýralegt“
Stærstur er 91 cm fiskur hjá þeim félögum.

„Þetta er allt að gerast í Ármótunum. Við prófuðum aðeins í Kleifarnefinu, var hann of hraður til að geta kastað hann af einhverju viti. Ég ætla að gera tilraun til þess að komast í Mastrið neðst í Ármótunum á morgun, okkur sýnist vera orðið fært þangað niðureftir. Ekki það að við þurfum eitthvað að vera að færa okkur, það er alveg nóg af fiski í Ármótunum og það stórum, mikið 70-80 cm fiskur en maður hefur bara gott af því að hvíla sig aðeins og prófa nýja staði“ sagði Hjörleifur hress að lokum.

Áframhaldandi gott veður er í kortunum og lítur framhaldið vel út fyrir komandi veiðimenn.